Íslenska Kalkþörungafélagið ehf, var stofnað að frumkvæði Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða árið 2001. Félagið stóð fyrir því að gerð var matsskýrsla á námi kalkþörungasets í Arnarfirði. Þann 17. desember árið 2003 var skrifað undir vinnsluleyfi til handa félaginu. Umhverfisáhrif vinnslunnar voru metin og niðurstöður rannsókna voru jákvæðar. Ein af forsendum umhverfismatsins og þar með leyfisins var að úrvinnsla kalkþörungasetsins færi fram við Arnarfjörð og gert ráð fyrir að það yrði á Bíldudal. Sama ár tóku Írska fyrirtækið Celtic Sea Minerals Ltd. (75%) og Björgun ehf. (25%) við rekstrinum.

Áætlað magn kalkþörungasets á þeim svæðum sem könnuð hafa verið er um 21,5 milljón m3.  Vinnsluleyfið sem gildir til 1. desember 2033 tekur til eftirtalinna þriggja svæða: Svæði 1 liggur meðfram ströndinni frá Bíldudal inn í botn Fossfjarðar, svæði 2 er í Reykjarfirði utanverðum og svæði 3 er sunnanvert Langanesgrunn. Starfsleyfi verksmiðjunnar heimilar framleiðslu á allt að 50.000 tonnum af kalki á ári og gildir til 1. nóvember 2022.

Bygging kalkþörungaverksmiðjunnar hófst haustið 2005. Framleiðsla hófst í september 2007. Afurðir verksmiðjunnar eru steinefnafóður og  jarðvegsbætiefni og er nær allt flutt út. Í byrjun var notað gas til þurrkunar en frá miðju ári 2010 hefur verið notað rafmagn. Söluskrifstofa fyrirtækisins er í Cork á Írlandi og fara afurðir verksmiðjunnar til viðskiptavina um allan heim. Starfsmenn verksmiðjunnar á Bíldudal eru 24 og auk þess nokkur afleidd störf.

Íslenska Kalkþörungafélagið ehf. hefur verið með vottun frá vottunarstofunni Tún um lífræna framleiðslu frá árinu 2007.  Haustið 2008 fékk félagið alþjóðlega fóðurvottun, FEMAS.