Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt og aukið starfsleyfi fyrir Ískalk á Bíldudal
Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt og aukið starfsleyfi fyrir Íslenska kalkþörungafélagið sem gildir til 9. maí 2034. Starfsleyfið byggir umsókn fyrirtækisins um 35 þúsund tonna árlega framleiðsluaukningu kalks úr 50 þúsund tonnum í 85 þúsund tonn. Von er á uppfærðri útgáfu starfsleyfisins á vef Umhverfisstofnunar.
Þann 30. júní 2016 kynnti Kalkþörungafélagið Skipulagsstofnun áform sín um framleiðsluaukningu kalks á Bíldudal og leitaði stofnunin í kjölfarið umsagna frá hagsmunaaðilum. Þeirra á meðal eru Ísafjarðarbær, Vesturbyggð, Hafrannsóknarstofnun, Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, Orkustofnun og Umhverfisstofnun.
Í samræmi við 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum yfirfór Skipulagsstofnun gögn félagsins sem lögð voru fram ásamt umsögnum sem bárust. Á grundvelli þeirra var það mat Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framleiðsluaukning væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi framkvæmdin því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Samfara umsókn félagsins hefur fyrirtækið látið útbúa nýtt hljóðstigskort fyrir áhrifasvæði verksmiðjunnar og endurskoðað mengunarmælingar og vöktunaráætlun í samvinnu við viðeigandi stofnanir.
Í nýja starfsleyfinu sem Umhverfisstofnun staðfesti 11. maí er tekið fram að starfsleyfið hafi ekki tekið efnislegum breytingum umfram orðalagsbreytingu í grein 4.2 um mengunarmælingar sem hafa verið endurskoðaðar til að bæta gæði þeirra.
Sjá nýtt starfsleyfi á vef Umhverfisstofnunar.
Viðhaldsstjóri óskast á Bíldudal – Í boði er krefjandi og skemmtilegt starf hjá traustu og vel reknu fyrirtæki
Gjöf til Tjarnarbrekku
Þann 19. nóvember færði Íslenska kalkþörungafélagið Leikskólanum Tjarnarbrekkur endurskinsvesti. Eins og sést á myndinni munu þau virka vel í rökkrinu í vetur.
Tillaga að matsáætlun um kalkþörunganám í Ísafjarðardjúpi
Íslenska kalkþörungafélagið áformar að hefja vinnslu á kalkþörungum úr Ísafjarðardjúpi. Framkvæmdin felur í sér efnisnám af hafsbotni sem nemur allt að 120 þúsund rúmmetrum (m3) á ári. Efnið verður unnið í verksmiðju sem stefnt er að því að reisa og reka á Súðavík og verða afurðir fluttar á markaði erlendis.
Af þessu tilefni hafa VSÓ Ráðgjöf í samstarfi við Jarðfræðistofu Kjartans Thors unnið tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðs kalkþörunganáms Íslenska kalkþörungafélagsins í Ísafjarðardjúpi. Tillagan er nú til kynningar og má finna hana hér að neðan.
Í tillögu að matsáætlun er m.a. gerð grein fyrir eftirfarandi:
- Hvernig staðið verður að vinnu vegna mats á umhverfisáhrifum.
- Helstu áhrifaþáttum framkvæmdarinnar.
- Umhverfisþáttum sem kunna að verða fyrir áhrifum.
- Gögnum og rannsóknum sem lögð verða til grundvallar matinu.
Þar sem ekki liggur fyrir endanleg ákvörðun um staðsetningu og útfærslu fyrirhugaðrar verksmiðju fjallar þessi tillaga að matsáætlun eingöngu um námuvinnsluna í Ísafjarðardjúpi.
Almenningur er hvattur til að kynna sér efni tillögunnar. Senda má skriflegar athugasemdir eða ábendingar til Auðar Magnúsdóttur hjá VSÍ Ráðgjöf á netfangið audur@vso.is, til VSÓ Ráðgjafar (b.t Auðar Magnúsdóttur), Borgartúni 20, 105 Reykjavík. Frestur til að senda inn ábendingar er til 2. júní 2015.
Gert er ráð fyrir að ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun liggi fyrir í byrjun júní (sjá áætlun í skýrslunni). Samhliða rannsóknavinnu verður hafin vinna við frummatsskýrslu. Þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir verður unnt að leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Áætlun gerir ráð fyrir að frummatsskýrsla verði auglýst um mánaðarmótin október/nóvember og að álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslu liggi fyrir í janúar 2015. Hér fyrir neðan má sjá tímaáætlun matsferlis efnistöku kalkþörunga í Ísafjarðardjúpi.
Nýr framkvæmdastjóri Ískalk
Guðmundur V. Magnússon hefur látið af störfum hjá Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. Hann hefur unnið hjá fyrirtækinu frá upphafi og komið að mikilli uppbyggingarstarfsemi fyrirtækisins. Þökkum við Guðmundi samstarfið þessi ár og óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Við starfi Guðmundar tekur Einar Sveinn Ólafsson fyrrum framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum. Bjóðum við hann velkominn til starfa.
Gjöf til Tjarnarbrekku
Í gær afhenti Íslenska kalkþörungafélagið leikskólanum Tjarnarbrekku glæsilegan Playmo búgarð sem fyrirtækið vann í happdrætti Lions á Patreksfirði. Voru krakkarnir alsæl með þennan glaðning.
Efri röð frá vinstri: Patrekur Sölvi, Ísabella Guðrún, Tristan Elí, Sverrir Elí, Alex, Védís Eva, Kristjana Maja.
Neðri röð frá vinstri: Gunnar Nökkvi, Ottó Hrafn, Mardís Ylfa, Hildur Ása, Helga Lára, Helena Margrét.