Eftir að kalkþörungum hefur verið dælt í hráefnislón er þeim mokað upp á hörpu sem harpar efnið í hauga og tekur frá grjót. Efninu er síðan mokað í innmötunarsíló og fer áfram með færibandi inn í þurrkarann og sér síubúnaður um að binda ryk sem fer aftur inn í vinnsluferlið. Að þurrkun lokinni fer efnið í gegnum hristisigti sem flokkar það eftir stærð og tekur frá grjót. Efnið fer svo áfram ýmist í geymslusíló eða kornunarverksmiðju þar sem áburður og kornað dýrafóður er búið til og pakkað. Úr geymslusílóum er efni ýmist pakkað eða það malað í fínt duft og blandað með steinefnum til vinnslu dýrafóðurs. Allar fullunnar afurðir fara á lager þar sem þær bíða útflutnings.